Smánarblettur

HÚN var ekki uppörvandi myndin, sem blasti við sjónvarpsáhorfendum skömmu fyrir jól sem sýndi hóp fólks norpandi í krapaslyddu framan við húsakynni Fjölskylduhjálpar Íslands í von um að fá matarpakka úthlutaða fyrir jólin. Rætt var við fimm barna móður í sjónvarpinu. Hún kvaðst engin önnur úrræði hafa en leita á náðir hjálparstofnana, ekki væru til peningar fyrir mat, þegar búið væri að greiða brýnustu útgjöld, ekki peningar handa börnunum fyrir neins konar tómstundastarfsemi, ekki hægt að senda þau í sund, ekki einu sinni til klósettpappír, þegar líða tæki á mánuðinn. Því miður er þessi kona langt frá því að vera ein með sína sögu. Ótalinn er allur sá fjöldi, sem var úthlutað mataraðstoð á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar. Þar er greint frá því, að fjöldi umsókna fari vaxandi ár frá ári, fyrir jólin 2005 fjölgaði þeim um þriðjung frá árinu á undan, og enn er stöðug aukning. Nú hefur það gerst að öldruðum hefur fjölgað verulega í þessum hópi, og eru þeir ásamt öryrkjum og einstæðum foreldrum fjölmennastir í hópi þeirra, sem um aðstoð sækja. Mataraðstoð er heldur ekki lengur bundin við jólin ein, þótt fólk finni alltaf sárast fyrir skorti um þá blessuðu hátíð.

Skortur er orðinn viðvarandi ástand víða í samfélaginu, og því eru hjálparstofnanir farnar að úthluta einhverri aðstoð nánast allan ársins hring.

Í skýrslu forsætisráðherra, sem hann lagði fram á Alþingi í desember að beiðni Samfylkingarinnar, um fátækt barna á Íslandi, kemur fram að allt að 6,6% íslenskra barna teljist búa við fátækt og skort af einhverju tagi og mest sé fátæktin hjá börnum ungra einstæðra foreldra. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Fátækt barna lýsir sér t.d. í því, að hluti þeirra getur ekki nýtt sér möguleika á heitum máltíðum í skólum vegna lítilla efna foreldranna. Er það forsvaranlegt?

Því miður virðist þessi ógæfulega þróun vera afleiðing vaxandi ójafnaðar í tekjuskiptingu landsmanna hin síðari árin, þar sem lágtekjufólk hefur dregist aftur úr í kjarabaráttunni með minni hækkun tekna, á sama tíma sem hinir betur settu í þjóðfélaginu hafa makað krókinn. Það er auðvitað engin tilviljun, heldur afleiðing af efnahagsmálastefnu stjórnvalda, sem þannig birtist. Á það hefur Stefán Ólafsson, prófessor, bent rækilega í skrifum sínum að undanförnu. Kjarabætur, sem ríkisstjórnin samdi um við öryrkja og aldraða á liðnu ári, eru vissulega spor í rétta átt, en alltof lítil.

Að eldri borgarar skuli aðeins mega vinna sér inn kr. 300 þúsund á ári, án þess að bætur þeirra skerðist sýnir ekki mikinn skilning á þörfum þeirra, og enn munu tekjur maka í einhverjum mæli skerða greiðslur til lífeyrisþega, sem er ótrúlegt og í rauninni ekkert annað en mannréttindabrot.

Hvers konar stjórnvöld eru það, sem þannig koma fram gagnvart kynslóðinni, sem með lífi sínu og ævistarfi hefur lagt grundvöllinn að þeirri velferð, sem stærstur hluti þjóðarinnar nýtur í dag?

Hvers konar samfélag er það, sem lætur slíkt viðgangast?

Gefur það ekki vísbendingu um, að samhjálp og samhygð fari þverrandi í þjóðfélaginu, þar sem hver eigi aðeins að hugsa bara um eigin hag, skara eld að eigin köku, en ekki að gæta bróður síns?

Allt virðist bera að sama brunni.

Fátækt er orðin staðreynd á Íslandi, hvort sem stjórnvöld vilja viðurkenna það eða ekki. En er hún lögmál, sem við eigum að sætta okkur við?

Getum við sætt okkur við, að til sé fólk í landinu, sem skortir fæði og klæði og hefur jafnvel ekki efni á að senda börnin sín í íþróttir og sund?

Eigum við að sætta okkur við smánarblett fátæktarinnar í landi, sem stundum er nefnt "eitt meðal ríkustu þjóða heims", þar sem örfáir peningamenn hafa hagnast óheyrilega og eiga nú orðið flest stærstu fyrirtæki landsins og þar sem bankarnir sýna á liðnu ári slíkan ofurgróða, að venjulegt fólk leggur ekki í að taka sér slíkar upphæðir í munn. Hvað er boðlegt í þjóðfélagi, sem vill kalla sig kristið? Það eru til nægir peningar á Íslandi í dag til að útrýma fátækt í landinu, sé vilji fyrir hendi. Er þá ekki vilji fyrir hendi, eða hvað er að? Eða eru stjórnvöld orðin svo gjörsamlega slitin úr tengslum við hið lifaða líf fólksins í landinu, að þau viti ekkert hvar þar fer fram?

Hvar er Alþingi og hvar eru ráðherrarnir, sem þessi mál heyra undir?

Fáum dettur í hug, að raunhæf breyting verði á þessum málum, meðan núverandi stjórnarflokkar sitja að völdum, þá væru þeir væntanlega búnir að láta verkin tala eftir tólf ára samfellda setu á valdastóli.

Við þurfum nýja ríkisstjórn, félagshyggjustjórn, stjórn jafnaðar og samhjálpar, sem setur manneskjuna ofar auðgildinu, þá er von til að einhver breyting verði.

Við þurfum ekki fleiri skrautritaða bæklinga inn um bréfalúgurnar nú fyrir kosningarnar þar sem lofað er endurbótum á velferðarkerfinu einhvern tíma í framtíðinni, heldur verk og framkvæmdir ekki seinna en strax. Engin félagshyggjustjórn verður mynduð eftir kosningarnar 12. maí án þátttöku og styrks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Höfum það hugfast, er við göngum að kjörborðinu í vor.

Höfundur er sóknarprestur á Mælifelli.


Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Sæll, séra Ólafur! Manstu nokkuð eftir mér? Ég hef fylgst með þér úr fjarlægð á liðnum áratugum og hef alltaf á þér sömu mæturnar og fyrrum. Bæti við, að mér þykir jafnan heldur verra þegar prestar draga taum einstakra stjórnmálaflokka. Mér finnst að þeir ættu að vera yfir það hafnir. Alveg sama hvort það hafa verið þeir góðu menn séra Bjarni á Mosfelli, einn besti og gáfasti maður sem ég hef kynnst, séra Gunnar í Hveragerði, séra Baldur í Vatnsfirði ...

Hlynur Þór Magnússon, 3.4.2007 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband